Rafmagnsleysi

Flestir eru háðir rafmagni

Rafmagn er fyrir löngu orðið svo sjálfsagt í daglegu lífi okkar, að fæstir hugsa út í mikilvægi þess fyrr en það fer af. Það er fátt sem ekki er að einhverju leyti háð rafmagni. Án rafmagns væri hvorki útvarp né sjónvarp, iðnaður myndi stöðvast og híbýli myrkvast og kólna. Hér á árum áður brá mönnum ekki svo mjög í brún þótt rafmagnslaust yrði svo dögum skipti, en sem betur fer er slíkt orðið fátítt. Með bættu dreifikerfi og aukinni þjónustu hefur tekist að draga mjög úr hættu á langvarandi rafmagnsleysi, enda er mikið í húfi þar sem verðmætar afurðir geta farið forgörðum. Orkubúið er með bilanavaktir, svo ávallt er hægt að ná sambandi við einhvern starfsmann, ef bilun verður. Útköll vegna bilana um helgar og miðjar nætur eru þó kostnaðarsamar og því er mikilvægt að notendur geri sér grein fyrir því hvort rafmagnsleysi stafar af bilun í eigin raflögn eða í veitukerfinu.

Lekastraumsrofinn - sjálfsögð öryggisráðstöfun

Í rafmagnstöflum flestra húsa er svokallaður LEKASTRAUMSROFI. Her er um að ræða mikilvægt örryggistól, sem getur bjargað mannslífum og miklu tjóni. Margir sem létu setja upp hjá sér slíkan rofa voru ekki allskostar ánægðir með hann í byrjun. Rofinn átti það til að "slá út" af minnsta tilefni, af því er virtist. En ástæðan er sú, að rofinn "kjaftaði frá" göllum í raflögninni eða tækjum, sem tengdust henni. Til þess að fá frið fyrir rofanum varð að láta lagfæra lögnina.

Ef rafmagnið fer

Ef rafmagnið fer af hjá þér, skaltu byrja á því að athuga hvort lekastraumsrofinn hefur slegið út. Reyndu að setja hann inn aftur. Ef það tekst ekki eða þá að hann slær aftur út, er best að fá rafvirkja til þess að líta á lögnina. En þar sem ekki er alltaf hægt að fá viðgerðarmann samstundis, er ef til vill hægt að finna bilunina á eftrifarandi hátt:

  1. Takið út öll greinivörin (öryggin), en ekki aðalvörin.
  2. Setjið lekastraumsrofann inn. Ef rofinn rýfur aftur, er þörf á að leita til rafvirkja.
  3. Ef rofinn rýfur ekki, setjið þá greinivörin inn, eitt af öðru. Rofinn á nú að rjúfa um leið og var (öryggi) hins bilaða hluta er sett inn.
  4. Öll raftæki, sem tengd eru bilaða hlutanum, eru nú tekin úr sambandi eða slökkt á þeim og rofinn settur inn að nýju.
  5. Ef rofinn rýfur nú, er bilunin á föstu lögninni.
  6. Ef rofinn rýfur ekki, er bilunin í tækjum. Bilaða tækið er nú hægt að finna með því að tengja tækin á ný, eitt af öðru.
  7. Til lagfæringar á biluninni er ráðlegast að leita til rafvirkja.

Prófhnappur er á lekastraumsrofanum. Ef þrýst er á hann, á lekastraumsrofinn að rjúfa. Til öryggis er best að prófa þetta tvisvar til þrisvar sinnum á ári hverju.

Ef lekastraumsrofinn er inni og rafmagnslaust samt sem áður, er einn viðbótarmöguleiki á bilun innanhúss. Höfuðvarið í aðaltöflunni getur hafa rofið. Ef sú er raunin, er líklegt að eitthvað alvarlegt sé að lögninni. Það getur líka verið, að of mikið álag hafi verið sett á lögnina. Athugaðu þetta vel og skoðaðu töfluna, sem sýnir hve mikið álag hvert var þolir. En umfram allt:

FARÐU AÐ ÖLLU MED GÁT!
GERÐU EKKERT NEMA ÞAÐ SEM ER ÖRUGGLEGA Á ÞÍNU FÆRI! LEITAÐU TIL FAGMANNS!

AFL 

Afl tækja er skráð á þau, ýmist í wöttum (W) eða þúsundum watta (kW). Vörin (öryggin) takmarka rafstrauminn sem má fara um leiðslurnar að viðkomandi tæki. Straumurinn er mældur í amperum (A). Rafspenna er hins vegar mæld í voltum (V) og algengasta spenna fyrir heimilistæki er 220 V. Afl er margfeldi straums og spennu. Þannig er leyfilegt hámarksálag á 10 A vari 10 x 220 = 2200 W, eða 36 ljósaperur, sem eru 60 W hver, eða tengill í eldhúsi fyrir hraðsuðuketil, sem er 2,2 kW. Ef brauðrist, sem er 800 W, er bætt við hraðsuðu ketilinn, verður álagið 2200 + 800 = 3000 W. Það samsvarar tæplega 14 A straumi og því er hætt við að 10 A var endist skammt.

VAR AFL DÆMI UM NOTKUN
10 A 2200 W Ljós, kæliskápur, frystikista og smátæki
16 A 3520 W Þvottavél, þurrkari og þess háttar
20 A 4400 W Eldunarhellur, sérbyggöur bökunarofn
25 A 5500 W Eldavél og ofn (sambyggð)

Hvað gerist ef of stórt öryggi er notað?

Eins og áður sagði eru vörin (öryggin) til þess að verja raflögnina. Lögnin er úr einangruðum koparþráðum, sem þola ákveðið álag án þess að hitna. Ef notað er stærra öryggi fyrir lögnina, getur hún ofhitnað og valdið íkveikju. Leitið því ætíð ráða hjá fagmönnum.

Bilun í veitukerfinu

Veitukerfið getur brugðist, sérstaklega í strjálbýli, þegar illa viðrar. Ef rafmagnið fer og þú hefur gengið úr skugga um að ekki sé um innanhússbilun að ræða, skaltu hafa samband við Orkubúið til að tilkynna straumleysið. Hafa ber hugfast, að Orkubúið er oft með símsvara fyrir bilanatilkynningar og vísar hann þá á vakthafandi starfsmann. Ef símsvarinn er líka rafmagnslaus, fæst auðvitað ekkert svar. Í neyðartilvikum er hægt að hringja í þá starfsmenn, sem tilgreindir eru í símaskrá undir nafni Orkubúsins. Einnig má hafa samband við lögreglu. Áður en tilkynnt er um bilun til Orkubúsins, er skynsamlegt að líta út og gera lauslega könnun á því hvort ljós er í næstu húsum, eða bæjum. Slíkar upplýsingar geta oft flýtt fyrir viðgerð.

Sýndu þolinmæði

Þegar rafmagnið fer, raskast margt og ef um alvarlegar bilanir er að ræða, geta liðið klukkustundir áður en viðgerð lýkur. Það getur verið erfitt að bíða í dimmu, hálf köldu húsi um hávetur og geta ekki einu sinni hitað sér kaffisopa. En það er ennþá erfiðara að berjast áfram í vonskuveðri og stundum um torsótta vegu til viðgerða á línum. Þú getur treyst því, að allt er gert sem hægt er til þess að koma rafmagninu á að nýju. Sýndu því þolinmæði.

Þegar rafmagnið er tekið af

Ef þú ert skuldlaus við Orkubúið, er rafmagnið ekki tekið af þér með vilja, nema þegar þess þarf vegna viðgerða annarsstaðar í kerfinu. Slíkt rafmagnsleysi er yfirleitt auglýst í útvarpi eða með því að hafa samband við viðkomandi notendur, a.m.k. ef það varir lengur en fáeinar mínútur. Yfirleitt er reynt að velja þann tíma sólarhrings, sem veldur minnstum truflunum. Vissulega eru alltaf óþægindi af slíku straumrofi, en hjá því verður því miður ekki komist.

RAFMAGN ER TIL FLESTRA HLUTA NYTSAMLEGT, EN MUNDU AÐ ÞAD ÞARF AD UMGANGAST RAFMAGNSBÚNAÐ MEÐ VARFÆRNI OG VIRÐINGU !