Í aðalatriðum er um þrenns konar spennistöðvabyggingar að ræða.
- Hverfisspennistöð í eigin húsnæði Orkubúsins.
- Hverfisspennistöð í húsnæði notanda, venjulega stærsta notanda í hverfinu.
- Spennistöð ætluð einum notanda og staðsett í húsnæði hans.
Í öllum þrem tilvikum þarf húsnæðið og allur frágangur búnaðar að uppfylla reglugerð um raforkuvirki og reglur um eldvarnir.
Í tilvikum 1 og 2 er krafa frá Orkubúinu um óhindrað aðgengi til spennistöðvarinnar utan frá, til allra aðgerða sem kunna að vera nauðsynlegar vegna rekstrar, þar með taldar strenglagnir.
Í tilvikum 2 og 3 ber sérstaklega að hafa í huga eldtrausta þéttingu á raflögnum (t.d. stofnlögn) til annarra hluta hússins. Loftræstingarbúnaður uppfylli kælingarþörf fyrir spenni (loftræstikerfið má ekki vera samtengt öðrum loftræstikerfum) og sé hann útfærður samkvæmt kröfum eldvarnareftirlits og Brunamálastofnunar. Á spennistöðinni skal vera eldvarnarhurð. Í spennistöðinni má enginn búnaður vera annar en sá sem nauðsynlegur er vegna reksturs spennistöðvarinnar og er í umsjón Orkubúsins.
Engar lagnir sem tilheyra húsinu, þ.e. vatn, skolp, sími, eða neitt annað má liggja í gegn um spennistöðvarrýmið.
Engum öðrum en starfsmönnum Orkubúsins eru fengnir í hendur lyklar að spennistöðvum enda eiga þeir einir þangað erindi.
Í tilviki 3 getur Orkubúið þurft að sætta sig við það, að hafa ekki óhindraðan aðgang að spennistöðinni eins og lýst er hér að framan. Í slíku tilfelli greiðir notandinn allan stofnkostnað við húsnæði og búnað stöðvarinnar og tengingu hennar við rafkefi Orkubúsins. enda verða aðrir notendur ekki tengdir við spennistöðina. Orkubúið sér um daglegan rekstur og venjulegt viðhald stöðvarinnar, en notandinn greiðir allan kostnað sem hlotist getur af endurbótum eða endurnýjun búnaðar í stöðinni. Notanda er skylt að tryggja, að ætíð sé greiður aðgangur að hurð spennistöðvarinnar og fulltrúi Orkubúsins getur ávallt, án sérstaks leyfis, farið í spennistöðina þegar húsið er opið. Hinsvegar hefur Orkubúið ekki áhuga fyrir því að hafa lyklavöld að húseignum annarra. Í slíkum tilvikum sem þessu staðsetur Orkubúið háspennuvarrofa fyrir spenninn utan spennistöðvarinnar, (í annarri spennistöð) og getur því hvenær sem er rofið rafmagn til hennar ef nauðsyn krefur, án þess að fara í stöðina.