Ef hitakerfi er ekki í jafnvægi fer of mikið vatn um suma ofna og varmanýting þeirra verður slæm. Einstaka ofnar verða útundan og fá ekki nægjanlegt vatn þannig að misheitt verður í húsinu. Mikilvægt er að tryggja að hámarksrennsli til allra ofna sé takmarkað eftir afkastagetu þeirra (Kv-gildi) og að bakrásarhiti sé álíka frá öllum ofnunum.
Reynslan sýnir að oft vantar nokkuð upp á að hitakerfi séu rétt stillt. Þetta á ekki síst við um kerfi þar sem sjálfvirkir framlokar eru notaðir til að halda stöðugum hita í hverju herbergi. Þrýstifall í þrýstijafnara og lokum verður að vera hæfilegt og þess vegna er skynsamlegt að fá fagmenn til að athuga kerfi ef grunur leikur á að það sé vanstillt.
Veistu til dæmis:
- Að hægt er að læsa ofnlokum og koma þannig í veg fyrir yfirstillingar?
- Að nýju gerðirnar af framlokum hafa innbyggða Kv-gildisstillingu, sem kemur í veg fyrir sóun vatns?
- Að nýju gerðirnar af framlokum vinna mun hraðar og nákvæmar en þær eldri og nýta þess vegna vatnið betur?
- Að stilla þarf bakloka eftir árstíðum þannig að þeir sói ekki vatni?
- Að stilla þarf þrýstijafnara eftir árstíðum þannig að þeir sói ekki vatni?
- Að ef þrýstijafnari er t.d. stilltur á 4 í stað 1 þá nota ofnarnir helmingi meira vatn en annars, við sömu opnun í ofnlokum?
- Að komnir eru á markaðinn neysluvatns-varmaskiptar, sem eru í mörgu heppilegri en t.d. gömlu hitakútarnir?
- Að kominn er á markaðinn stjórnloki sem er sérstaklega gerður til að stjórna neysluvatnsnotkun þinni þannig að besta nýting á heita vatninu sé tryggð?
- Að kominn er á markaðinn einfaldur búnaður til utaná liggjandi pípulagna?
Ofnlokar
Sjálfvirkir ofnlokar eru tvenns konar, framrásarlokar (framlokar), settir þar sem vatnið rennur inn á ofnana og bakrásarlokar (baklokar), settir þar sem vatnið rennur frá ofnunum.
Framlokar
Framlokar eru staðsettir í framrás ofna (heita hlutanum). Þeir skynja herbergishitann og leitast við að halda honum stöðugum á því gildi sem framlokinn er stilltur á. Mikilvægt er að nota þreifara ef eitthvað getur valdið rangri skynjun á raunverulegum herbergishita. Þessu getur t.d. valdið opnanlegur gluggi við lokann, lokinn byrgður af gluggatjöldum eða gluggasyllu o.fl. Jafnframt er mikilvægt að stilla inn hámarks rennsli (Kv-gildi) fyrir hvern loka.
Kostir framloka eru að þeir halda sjálfvirkt jöfnum og þægilegum herbergishita allt árið. Stillingu þeirra þarf ekki að breyta nema breyta eigi herbergishitanum, eða á meðan loftræsing fer fram.
Ókostir framloka eru að óheppilega staðsettir eða vanstilltir lokar geta valdið slæmri varmanýtingu og sóað fjármunum. Þó hefur verið dregið verulega úr þessum ágöllum í nýjustu gerðum af framlokum.
Baklokar
Baklokum er komið fyrir í bakrás ofna (kalda hlutanum). Þeir skynja vatnshitann í bakrásinni og hleypa vatninu ekki í gegnum sig fyrr en það hefur kólnað niður í þann hita sem baklokinn er stilltur á.
Kostir bakloka eru að þeir tryggja kælingu vatnsins niður í þann hita sem þeir eru stilltir á.
Ókostir bakloka eru að þeir tryggja ekki stöðugan herbergis hita. Þeir sóa vatni ef stillingu þeirra er ekki breytt eftir útihita.
Ofnar
Stærð á ofni er reiknuð út frá varmaþörf í rýminu sem hann á að hita og nýtist ofn betur eftir því sem hann er stærri. Stórir ofnar lækka þannig hitunarkostnaðinn. Oft má ná fram verulega aukinni varmanýtingu, t.d. með því að tvöfalda þá ofna sem minnstu varmanýtinguna hafa eða bæta við fáeinum ofnum. Forðastu að fela ofna með gluggatjöldum og húsgögnum. Það hindrar varmastreymi, dregur úr varmanýtingu og hækkar hitunarkostnaðinn. Breiðir sólbekkir yfir ofnum hindra eðlilegt loftstreymi um þá og valda því að ofninn minnkar í upphitunarlegu tilliti.
Neysluvatnshitari
Mikilvægt er að neysluvatnshitari sé nægilega stór til að varmanýting hans verði góð. Lítill hitari hitar neysluvatnið oft nægilega en sóar við það fjármunum þínum. Sjálfvirkan stjórnbúnað þarf til að tryggja góða varmanýtingu. Neysluvatnshitari notar minna af hitaveituvatni eftir því sem stjórnbúnaður hans er stilltur á lægri neysluvatnshita.
Reynslan sýnir að sé stjórnbúnaði neysluvatnshitara ekki haldið við og hann hreinsaður sem skyldi, getur heitt vatn farið að renna í gegnum hann. Þetta vatn nýtist ekkert, þvert á móti sóar það einungis fjármunum þínum.
Loftræsting
Með sjálfvirkum framlokum er leitast við að halda herbergishita stöðugum á því gildi sem lokinn er stilltur á. Þegar köldu lofti er hleypt inn um opinn glugga eða dyr er hætta á að loftstraumurinn "blekki" lokann og að hann fari að hleypi illa nýttu vatni í gegnum sig á meðan þetta ástand varir. Með hæfilegri Kv-gildisstillingu framlokans má þó lágmarka þetta.
Góð regla er að hafa ekki glugga lengi opna þegar kalt er í veðri, heldur loftræsa duglega í stuttan tíma og lækka stillinguna á ofnloka herbergisins á meðan.
Innihiti hefur áhrif á varmanotkun þína. Því hærri sem innihitinn er, þeim mun meiri verður orku- og heitavatnsnotkun þín. Áætla má að upphitunarútgjöld þín hækki um allt að 6% fyrir hverja gráðu sem innihitinn er stilltur yfir 20°C.
Heitavatnsnotkun
Þegar þú veltir því fyrir þér hvort orku- og heitavatnsnotkun þín sé eðlileg eða of mikil má oft hafa gagn af viðmiðunartölum. Varmanýting verður að teljast góð þegar notuð eru 1,2 - 1,7 tonn (rúmmetrar) af heitu vatni fyrir hvern rúmmetra húsnæðis á ári. Á þetta við um meðalstór einbýlishús. Í stórum húsum þarf að öllu jöfnu hlutfallslega minna vatn en í litlum húsum.
Reynslan sýnir að í gömlum húsum þarf yfirleitt meira vatn til upphitunar en í nýjum.
Vatnsnotkun til upphitunar helst í hendur við veðurfar. Það er eðlilegt að notkun sé nokkuð mikil á veturna og lítil á sumrin.
Það er jafnframt eðlilegt að neðsti hluti ofna sé ívið volgari á veturna en á sumrin.
Gott hitakerfi
Gott hitakerfi er þegar þægilegur innihiti er í húsum (20°C) og allir ofnar virðast kaldir neðst við snertingu (25-30°C).
Hafðu það fyrir reglu og fáðu heimilisfólk þitt í lið með þér að þreifa reglulega á neðsta hluta ofna. Tilvalið væri t.d. að hver heimilismaður væri ábyrgur fyrir sínum herbergisofni. (Góð viðmiðun er að taka á einhverjum málmhlut í herberginu, t.d. hurðarhúni, en hann er um 20°C heitur).
Ef þetta tvennt er ekki í lagi, þ.e. innihiti þægilegur og ofnar kaldir (volgir) viðkomu neðst, er eitthvað að og líklegt að þú sért að sóa fjármunum þínum að óþörfu.
Einangrun
Varmatap húsa helst í hendur við einangrun glers og veggja. Húsnæði sem er vel einangrað þarf minni varma til upphitunar og ofnar nýtast betur. Minni varma þarf til hitunar þar sem tvöfalt gler er haft í gluggum í stað einfalds og má þar ná fram verulegum sparnaði. Oft má spara mikinn varma án mikils kostnaðar og umstangs með aukinni einangrun í þaki, sem oft er ábótavant, sérstaklega í eldri húsum.