Á árinu 1956 hófu Rafmagnsveitur ríkisins byggingu virkjunar í Mjólká sem nýtti fallið úr Borgarhvilft niður í Borgarfjörð, u.þ.b. 210 m. Miðlun í vatninu er 0,35 Gl, heildarlengd á stíflum 470 metrar og yfirfall 30 metra langt. Þrýstipípan er 987 metrar úr stáli. Þvermál efst 800 mm og neðst 700 mm. Virkjunin tók til starfa 1958.
Á árunum 1958 til 1960 lauk tengingu Mjólkárvirkjunar við kauptúnin frá Patreksfirði til Bolungarvíkur, ásamt tengingu við Reiðhjallavirkjun. Hér er um allmikið línukerfi að ræða sem liggur yfir hinar háu heiðar Vestfjarða með sæstrengi yfir ála Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þessi veita var nefnd Mjólkárveita.
Á árinu 1972 hófu Rafmagnsveitur ríkisins síðan undirbúning að annarri virkjun í Mjólká sem nýtir fallið úr Langavatni og niður í Borgarfjörð, u.þ.b. 490 m.
1971 til 1972 var byggð 280 metra löng stífla og 70 metra yfirfall við Langavatn í landhæð 496 metrum y.s.. Skurður grafin yfir í Hólmavatn og þannig náðist 3,2 Gl miðlun. Fyrst nýttist miðlunin fyrir Mjólká I, en fyrir Mjólká II þegar stækkun virkjunarinnar var lokið.
Framkvæmdir hófust við byggingu Mjólká II 1973 og þar með talin Tangavatnsmiðlun í landhæð 560 metrum y.s. og er 1,2 Gl. Þrýstipípan er 3.980 metra löng úr stáli með 900 mm víða pípu efst og 700 mm neðst.
Árið 1976 var Hofsárveita gerð til að auka innrennsli í Borgarhvilftarvatn inntakslón Mjólkár I til að bæta að hluta upp töpuðu innrennsli vegna Mjólkár II. Það var gert með því að byggja stíflu í Hofsánni fyrir botni Hofsárdals og veita vatninu í Borgarhvilftarlæk um 2.320 metra langa pípu og 525 m langan veituskurð.
Þann 1. Janúar 1978 var Orkubú Vestfjarða stofnað og tók við rekstri Mjólkárvirkjunar og þá var virkjunin 8,1 MW. Mjólká I 2,4 MW og Mjólká II 5,7 MW.
Byggingu Vesturlínu var lokið 1980 og þar með komst Mjólkárveita í tengingu við landskerfið. Fram að þeim tíma var Mjólkárvirkjun grunnaflstöð fyrir svæðið en nú framleiðir stöðin beint inná kerfi Landsnets.
2011 var vél fyrir Mjólká II frá 1975 skipt út fyrir 7 MW vél. Aflaukningin var möguleg vegna betri nýtni og umfram flutningsgetu pípunnar.
2016 var Pelton vél fyrir Mjólká I frá 1958 skipt út fyrir 3 MW Francis vél. Með þessu er aflaukning virkjunarinnar orðin 3,1 MW frá því endurbyggingin hófst 2010 og samtals er virkjunin 11,2 MW.
Stöðvarhús Mjólká I og II
Stöðvarhús Mjólkárvirkjana I og II er sameiginleg með einum vélarsal og kjallara. Húsið er staðsett fyrir botni Borgarfjarðar í næsta nágrenni við þjóðveg nr. 61. Vélarsalurinn hefur verðið lengdur tvisvar, fyrst um 9 metra 1975 og svo aftur um 6,3 metra 2011. 25 tonna brúarkrani og keyrslubraut hans er tæpir 27 metrar. 2006 var lágbyggingin stækkuð til að bæta starfsmannaðstöðu. Undan því var búið að byggja rofarími. Grunnflötur hússins er eftir allar þessar stækkanir 450 m2 og rúmmál hæða og kjallara 4.356 m3.
Mjólká III
Árið 2010 var Mjólká III byggð. Ný virkjun sem er í rauninni þrep fyrir ofan Mjólká I. Stíflurnar sem byggðar voru 1958 og mynduðu Prestagilsvatn í landhæð 318 metrum y.s. og er nú í inntakslón Mjólká III. Miðlun nánast enginn eða 0,08 Gl. Þaðan var lögð 800 mm víð pípa úr trefjaplasti 337 metra löng að Borgarhvilftarvatni og stöðvarhús byggt þar í landhæð 218 metrum. Afl virkjunar 1,2 MW.
Sama ár var Hofsárveita framlengd úr Borgarhvilftarlæk yfir í Mjólkána í landhæð 370 m y.s. með 220 metra langum skurði svo vatnið kæmist að inntaki Mjólká III. Einnig var bætt við lítilli veitu úr Kotvatni sem er vestan megin með 146 metra langri pípu.
Stöðvarhús Mjólká III samanstendur af 39 m2 vélasal og 17 m2 spennistöð. Húsið er sérstakt fyrir þær sakir að gólf salarins er undir vatnsborði Borgarhvilftarvatns. Flóð á yfirfalli er álíka og miðja vélarinnar og rafalans. Þannig nýtist fallhæðin frá Mjólká III að inntaki Mjólká I sem best.
Rekstur virkjunarinnar
Við virkjunina starfa fjórir starfsmenn og sjá þeir um daglegan rekstur, viðhald og eftirlit með stöðinni. Einnig hafa þeir umsjón með framleiðslustýringu annarra virkjana utan Mjólkár sem hafa miðlanir og eftirlit með öðrum.
Staðhættir
Vatnasvið Mjólkárvirkjana er á vestanverðu Glámuhálendinu fyrir botni Borgarfjarðar í Arnarfirði. Helstu ár á svæðinu eru Mjólká og Hófsá. Milli þeirra er Borgarhvilftarlækur sem rennur í inntakslón Mjólkár III og frá þeirri virkjun í Borgarhvilftarvatn. Árnar eru dragár með mismiklum lindarþætti en fá einnig nokkuð vatn úr fönnum sem ekki bráðna að fullu á sumrin. Fannirnar hafa þó minnkað mjög síðustu áratugina enda telst Gláma ekki lengur til jökla.
Meðalrennsli Mjólkár við rafstöðina er um 2,3 rúmmetrar á sekúndu. Í vatnsrýrasta ársfjórðungnum (miður janúar til miður apríl) fellur um 12 % af meðalrennslinu til sjávar en í vatnsmesta ársfjórðungnum um 40 % meðalársrennslisins. Lindarþáttur Mjólkár er því óvenjulega mikill og mun meiri en Hófsár og annarra áa sem mældar hafa verið á Vestfjörðum, að Dynjandisá undanskilinni.
Vatnasvið Mjólkár við rafstöð er rúmlega 29 ferkílómetrar. Þar af eru 20,5 ferkílómetrar fyrir ofan Langavatn og vatnasvið Borgarhvilftarvatns en 8,6 ferkílómetrar neðan Langavatns. Vatnasvið Hófsárveitu er 14 m2, Kotveitu 0,3 m2 og er þá samanlagt vatnasvið Mjólkár I 22,9 m2. Mjólká III er með vatnasvið samtals 21,8 m2.
Þegar um yfirfall er að ræða, þá fellur Mjólká niður bratta hlíð að rafstöðinni í mörgum hvítfyssandi fossum.
Orkuvinnsla
Raforkuframleiðslan var að jafnaði yfir 60 GWh fyrir stækkun 2010, en er nú rúmlega 70 GWh. Þar af er Mjólká I með 14 – 16 GWh, Mjólká II 47 – 52 GWh og Mjólká III 6 – 7 GWh.