Hinn 13.febrúar 1937 var langþráðum áfanga náð í raforkumálum Ísfirðinga. Þann dag fengu bæjarbúar í fyrsta sinn raforku frá orkuveri íslenskrar náttúru, vatnsaflsvirkjuninni í Engidal fyrir botni Skutulsfjarðar. Áður höfðu Ísfirðingar um nær sextán ára skeið notið raforku frá dísilstöð við Aðalstrætið.
FORSAGA RAFVÆÐINGAR Á ÍSAFIRÐI
Fyrsta rafveitunefnd Ísafjarðarkaupstaðar var skipuð árið 1913. Það ár bauðst Indriði Helgason rafvirki til þess að rafvæða bæinn frá móttorrafstöð, en samningar tókust ekki. Síðar sama ár sneri bæjarstjórnin sér til Halldórs Guðmundssonar raffræðings í Reykjavík um athugun á virkjun í Seljalandslæk, en danskir landmælingamenn höfðu gert mælingar á aðstæðum til virkjunar þar. Ekkert varð þó heldur úr þeim áformum.
Næst voru rafveitumál á Ísafirði tekin upp árið 1915, en þá gerði Guðmundur J. Hlíðdal verkfræðingur mælingar vegna raflýsingar og lagði ári síðar fram áætlun um 220 ha vatnsorkuver í Fossá í Engidal og 6 kV raflínu þaðan til bæjarins. Einnig þau áform voru lögð á hilluna nokkrum árum síðar, þegar nokkrir Ísfirðingar stofnuðu félag um rafvæðingu bæjarins.
RAFLÝSINGARFÉLAG ÍSAFJARÐAR HF
Nokkrir Ísfirðingar stofnuðu árið 1920 Raflýsingarfélag Ísafjarðar hf. og veitti bæjarstjórnin félaginu leyfi til þess að koma upp mótorrafsstöð með því skilyrði, að hún yrði lögð niður ef komið yrði upp vatnsorkuveri fyrir bæinn. Fyrsti formaður Raflýsingarfélagsins var Tryggvi Jóakimsson framkvæmdarstjóri.
Félagið fékk Jochum Ásgeirsson, rafmagnsfræðing frá Arngerðareyri, til þess að koma rafveitunni á fót, setja niður vélar og leggja dreifikerfi um kaupstaðinn. Verkið hófst þegar sumarið 1920 og tók rafveitan til starfa árið eftir. Vélunum var fyrst komið fyrir í kjallaranum að Aðalstræti 24, en árið 1930 voru þær fluttar yfir götuna að Aðalstræti 25. Notendur voru 60 fyrsta árið en voru ornir um 400 árið 1930. Rekstur félagsins var erfiður, einkum síðari árin, og var honum hætt 13.febrúar 1937 þegar Fossavatnsvirkjun tók til starfa.
FREKARI ATHUGANIR Á VIRKJUN VATNSORKU
Eiríkur Ormsson rafvirkjameistari í Reykjavík gerði árið 1925 athuganir á staðháttum og virkjunarleiðum fyrir Ísafjarðarkaupstað. Tveimur árum síðar var honum falið að gera tillögur um virkjun Fossár og Selár í Engidal og lagði hann þær fram árið eftir. Þá var Steingrímur Jónsson, rafmagnsstjóri í Reykjavík, beðinn um samanburð á tillögum Eiríks um virkjun í Engidal og áætlunum Jóns Fannbergs um sameiginlega virkjun Bolvíkinga, Hnífsdælinga og Ísfirðinga við Reiðhjalla í Bolungarvík og ennfremur var hann beðinn að athuga möguleika á stórvirkjun fyrir Vesfirði í Arnarfirði. Steingrímur lagði fram mjög ítarlega álitsgerð í árslok 1928 og mælti með virkjun í Engidal, þar sem fallið úr Fossavatni, um 302 metrar, yrði virkjað.
UNDIRBÚNINGUR FOSSAVATNSVIRKJUNAR
Ekki varð þó að framkvæmdum að sinni, en við tók margra ára leit að erlendu lánsfjármagni til virkjunarinnar. Loks náðust samningar við sænsk fyrirtæki og hófust virkjunarframkvæmdir í Engidal árið 1936. Um það leyti var Rafveita Ísafjarðar stofnuð og stóðu að henni í sameiningu Ísafjarðarkaupstaður og Eyrarhreppur (Hnífsdalur).
FRAMKVÆMDIR VIÐ FOSSAVATN
Samningar tókust við sænska fyrirtækið Skånska Cement Gjuteriet, sem lagði til byggingarefni og tók að sér að reisa orkuver í Engidal. Sænskur verkfræðingur stóð fyrir framkvæmdunum en Sigurður S. Thoroddsen verkfræðingur hafði gert lokauppdrætti að mannvirkjunum.
Framkvæmdir hófust í maímánuði 1936 og gengu greiðlega. Vélar voru prófaðar í byrjun febrúar 1937 og skiluðu þær 640 kW, enda þótt vatnshverfillinn væri ekki nýttur til fulls. Hinn 13.febrúar 1937 var svo straumi frá Fossavatnsvirkjun hleypt á rafveitukerfi Ísfirðinga og jafnframt drepið á dísilstöðinni við Aðalstræti.
Byggingarkostnaður virkjunarinnar fór langt fram úr áætlunum. Verkið varð umfangsmeira en gert hafði verið ráð fyrir, stífla við Fossavatn var höfð mun hærri, skurður úr vatninu dýpri og vélarafl stöðvarinnar varð meira en áætlað hafði verið.
Stöðvarhúsið í Engidal var byggt úr steinsteypu, liðlega hundrað fermetrar að grunnfleti, einlyft með flötu bárujárnsþaki. Yfir vélunum er færanlegur krani. Húsið var stækkað árið 1956 þegar dísilvélum var komið þar fyrir til viðbótar.
Ný stífla ásamt lokuhúsi var steypt fyrir neðan þá gömlu og var því verki lokið 1974. Með henni hækkaði yfirborðið um 2 m og rúmmálsaukningin var allveruleg.
NÓNHORNSVATNSVIRKJUN
Fljótlega kom í ljós, að Fossavatnsvirkjun myndi ekki nægja vaxandi orkuþörf Ísfirðinga. Árið 1942 hófust framkvæmdir við virkjun Nónhornsvatns, en þaðan rennur Selá niður í Engidalinn, rétt við Fossavatnsvirkjunina (fallhæð 380 metrar). Bætt var við vélakosti í rafstöðinni og komst Nónhornsvatnsvirkjun í gagnið í mars 1946.
SAMTENGING VIRKJANA OG RAFSTÖÐVA
Í febrúar 1960 voru virkjanirnar í Engidal, Reiðhjallavirkjun í Bolungarvík, Mjólkárvirkjun í Arnarfirði og dísilstöðvar á svæðinu samtengdar. Í maí sama ár var aðveitustöð Rafmagnsveitna ríkisins í Stórurð á Ísafirði tilbúin til notkunar, en þar lágu þræðir stöðvanna saman.
ORKUBÚ VESTFJARÐA
Hinn 1.janúar 1978 tók Orkubú Vestfjarða til starfa og tók það við öllum eignum og rekstri Rafveitu Ísafjarðar og þar með Fossavatnsvirkjun.
Orkuframleiðla Fossavatnsvirkjunar í Orkubústíð hefur verið að meðaltali 3.500 MWh á ári. Í 60 ára sögu virkjunarinnar hefur framleiðlan hlutfallslega minnkað ár frá ári miðað við þörfina á Ísafirði. Nú annar hún um 6% af þörfinni, sem er um 60.000 MWh á ári.