Vegna fréttar í fréttatíma sjónvarps 16. desember, þar sem því var haldið fram að flutningskostnaður raforku væri mun hærri á Vestfjörðum en annarsstaðar á landinu, vill Landsnet koma eftirfarandi á framfæri:
Gjaldskrá fyrir flutning raforku er sú sama fyrir allt landið og er hún óháð þeirri vegalengd sem raforkan er flutt frá virkjunum til dreifiveitna. Flutningskostnaður raforkunnar er því sá sami á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum.
Frá því í febrúar 2008 til dagsins í dag hefur gjaldskrá Landsnets fyrir flutning raforku til almennra notenda hækkað um 10%. Á sama tíma hefur kostnaður vegna flutningstapa og tengdra liða sem koma til viðbótar flutningsgjaldi Landsnets lækkað verulega þannig að heildarflutningskostnaður hefur hækkað minna en áðurnefnd 10%.
Á þessu sama tímabili hefur vísitala neysluverðs hækkað úr 282,3 í 365,5 stig, eða alls um liðlega 29%. Á föstu verðlagi hefur því flutningskostnaður til almennra notenda lækkað um u.þ.b. 20% að raungildi á tímabilinu, en þessum árangri hefur Landsnet náð með margvíslegum aðgerðum sem miða að hagræðingu í rekstri fyrirtækisins.
Á línuritinu hér að neðan má sjá gjaldskrárbreytingar Landsnets og þróun vísitölu neysluverðs frá janúar 2005.
Kostnaður heimila og fyrirtækja við kaup á raforku skiptist í þrjá þætti: Kaupverð raforkunnar, flutningskostnað og kostnað við dreifingu hennar. Flutningskostnaður er nú um 10% af kostnaði raforkunnar og hefur hlutfall hans lækkað á undanförnum árum. Ástæða þess er sú að Landsnet hefur hækkað gjaldskrá sína mun minna en aðrir aðilar raforkumarkaðarins.
Margskonar endurbætur hafa verið gerðar á kerfi Landsnets á Vestfjörðum á síðustu árum og miða þær að því að auka rekstraröryggi raforkukerfisins í fjórðungnum. Endurbætur hafa verið gerðar á varnarbúnaði til að verja kerfið betur fyrir áföllum og hefur þetta skilað góðum árangri. Nýlega var lagður 66kV jarðstrengur milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og í undirbúningi er að setja upp sjálfvirka vararafstöð á Ísafirði. Frekari aðgerðir eru í undirbúningi til að bæta enn frekar afhendingu raforkunnar í fjórðungnum.
Nánari upplýsingar: Garðar Lárusson, viðskiptastjóri, s: 892-0084