Mjólká 3 er staðsett í landhæð 218 m y.s. ofan við Borgarhvilftarvatn. M.f. mynd sýnir stöðvarhúsið ofan við Borgarhvilftarvatn og er hægra megin á myndinni. Vinstra megin er inntaksmannvirki Mjólkár 1. Virkjuninni er ætlað að nýta rennsli Mjólkár 1 áður en það er virkjað neðan Borgarhvilftarvatns. Það er gert með því að veita Hofsárveitu úr Borgarhvilftarlæk um nýjan veituskurð í Mjólkána ofan Prestagilsvatns. Þar með fer allt rennsli um Prestagilsvatn áður en það fer í Borgarhvilftarvatn. Inntaksmannvirki virkjunarinnar er tengt við Prestagilsstífluna sem felst í vatnsþró og húsi með lokubúnaði. Þrýstipípan er 337 m löng úr DN 800 mm trefjaplasti og er að mestu niðurgrafinn.
Eftir að prófunum og þjálfun starfsmanna lauk föstudaginn 10.desember var vélin tekin í loka útsláttarprufur sem gengu vel. Af þeim loknum afhenti fulltrúi vélaframleiðanda Sölva R. Sólbergssyni framkvæmdarstjóra orkusviðs Orkubús Vestfjarða vélina til rekstrar. Afl vélarinnar er 1,16 MW og er áætlað að orkuframleiðslan verði um 6,5 GWh á ári. Afl Mjólkárvirkjunar er þá orðið 9,3 MW.
Nánar um vélina, verg fallhæð er 100 metrar, vatnsnotkun hverfis við fullt álag er 1,4 m3/s, snúningshraði 1000 sn/mín og er vatnshverfillinn af Francis gerð. Framleiðandinn Andritz Hydro er með höfuðstöðvar í Austurríki, en í rauninni er vélin Þýsk því öll hönnunin átti sér stað þar og hluti af framleiðslunni einnig. Rafali, 400 V er frá Hitzinger svo eitthvað sé nefnt.