Verðskrá Orkubús Vestfjarða fyrir raforkudreifingu hækkaði um 6% nú um áramótin. Hækkunin er tilkomin vegna verðhækkana á erlendum aðföngum og annarra verðlagshækkana. Þá hækkaði verðskrá OV fyrir hitaveitur einnig um 6% nú um áramótin af sömu orsökum.
Orkustofnun, sem fer með eftirlitshlutverk með tekjumörkum flutnings- og dreifiveitna, hefur yfirfarið hækkunina og staðfest að hún sé innan tekjuheimilda sem Orkubú Vestfjarða hefur skv. raforkulögum. Þá hefur iðnaðarráðuneytið staðfest hækkun á verðskrá OV fyrir hitaveitur og auglýst hana í stjórnartíðindum.
Virðisaukaskattur á rafhitun hækkar úr 2,59% í 7% nú um áramótin þar sem endurgreiðsla á skattinum fellur niður samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti fyrr í desember. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2011 var gert ráð fyrir niðurskurði á niðurgreiðslum til húshitunar, en til mótvægis við niðurfellingu á endurgreiðslu virðisaukaskatts til húshitunar, var fjármunum aftur bætt við þær við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011. Með reglugerð frá Iðnaðarráðuneytinu dags. 30. desember 2010 hafa niðurgreiðslur til rafhitunar á veitusvæði Orkubús Vestfjarða verið ákveðnar og hækka úr 3,54 kr/kWst í 4,15 kr/kWst í dreifbýli og úr 2,63 kr/kWst í 2,81 kr/kWst í þéttbýli. Niðurgreiðslur vegna kynntra hitaveitna breytast ekki.
Nýjar verðskrár má finna á ov.is.