Orkubúið vinnur nú að heildarendurnýjun raforkumæla á Flateyri.
Settir verða upp mælar sem hafa alþjóðlega MID gæðaviðurkenningu.
Raforkumælarnir falla undir innra eftirlit Orkubúsins fyrir raforkumæla en Orkubúið hefur samþykki Neytendastofu til að nota innra eftirlit í stað löggildingar
sbr. rg. nr. 1061/2008 um mælifræðilegt eftirlit með raforkumælum og 14. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.
Raforkumælarnir hafa innbyggðan radíósendi og er hægt að kalla fram stöðu mælis með fjarrálestri og þarf því ekki að nálgast mælinn lengur við álestur.
Séu tveir raforkumælar í notkun, annar fyrir almenna notkun og hinn fyrir hita, mun rafvirki taka niður raforkumælana og setja í staðinn einn mælir sem mælir heildarnotkun. Orkugjald verður þá 15% almenn notkun, 85% hiti. Viðskiptavinur borgar því aðeins eitt mælagjald. Óski viðskiptavinur þess getur hann áfram verið með tvo mæla en borgar þá tvö mælagjöld.
Upplýsingahnappur á nýjum raforkumælum.
Á nýju raforkumælunum er hnappur sem notandi getur ýtt á til að skoða upplýsingar á skjá mælis.
1. kWh heildar kílóvattstundir sem farið hafa í gegnum mælinn.
2. W aflið í vöttum sem sýnir hve mikið afl húsveitan er að taka.
3. kWh‘ núllstilling á kílóvattstundum, notandi getur fylgst með notkun frá því að síðast var núllstillt. Haldið hnapp inni þangað til núllast.
4. NUM númer mælis.
5. Lýsir allt á skjá upp.