Álagsprófanir vegna nýrrar varaaflsstöðvar í Bolungarvík dagana 10.-19. nóvember 2014

06. nóvember 2014

Nú styttist í að sameiginlegt markmið Landsnets og Orkubús Vestfjarða, um að draga úr straumleysi hjá notendum á Vestfjörðum, verði að veruleika með tilkomu nýrrar 10 MW varaaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík.

Framkvæmdir hófust árið 2013 og er nú verið að leggja lokahönd á verkið með prófunum á vélbúnaði og tæknibúnaði. Framundan er síðasti áfangi prófananna, sem eru álagsprófanir á svæðiskerfið vestra, og er fyrirséð að þær munu valda truflunum hjá notendum víða á Vestfjörðum en að sjálfsögðu verður reynt að lágmarka áhrifin eins og kostur er, m.a. með því að gera flestar þessara prófana að næturlagi.

Hér fyrir neðan eru dagsetningar fyrirhugaðra prófana og eru raforkunotendur beðnir um að kynna sér þær vel, svo draga megi sem mest úr þeim óþægindum sem alltaf fylgja straumleysi.

Mánudagur 10. nóvember
Prófanir fara fram að degi til. Öll vélasamstæðan verður keyrð á fullu afli í fjóra tíma til að prófa vélar, öll hjálparkerfi og reyna að finna veikleika í kerfinu. Notendur eiga ekki að verða varir við þessa prófun.

Þriðjudagur 11. nóvember
Prófanir fara fram aðfaranótt þriðjudags. Þær felast í því að "leysa út" Breiðadalslínu og vera með dísilvélar í varaaflsstöðinni í fullri keyrslu til að kanna getu þeirra til að reka einar „eyjuna“ sem þá myndast í svæðiskerfinu.

Notendur eiga ekki að verða varir við þessa prófun.

Miðvikudagur 12. nóvember
Prófanir halda áfram aðfaranótt miðvikudags. Þá verður prófað að leysa aftur út Breiðadalslínu, þannig að vélar í varaaflsstöðinni þurfi að keyra upp og spennusetja norðurhluta Vestfjarða með aðstoð snjallnetsstýringa.

Þessar prófanir munu orsaka straumleysi hjá notendum í Ísafjarðarbæ norðan Dýrafjarðar, í Bolungarvík og í Álftafirði.

Rafmagn verður tekið af fyrrnefndu svæði í það minnsta tvisvar sinnum, en til að truflanir verði í lágmarki eru þær framkvæmdar að næturlagi. Prófanir hefjast kl. 01 og verður lokið í síðasta lagi kl. 06. Tilkynnt verður á heimasíðu Orkubús, ov.is um leið og prófunum næturinnar er lokið.

Fimmtudagur 13. og föstudagur 14. nóvember
Aðfaranætur fimmtudags og föstudags fara umfangsmestu áfangar prófananna fram. Þá verður straumur tekinn af Mjólkárlínu 1 til að prófa nýjar stillingar stjórnbúnaðar í Mjólkárvirkjun, virkni snjallnetsstýringa og virkni nýju varaaflstöðvarinnar í Bolungarvík fyrir stýringu svæðiskerfisins á Vestfjörðum. Jafnframt verða könnuð áhrif mismunandi keyrslu véla í Mjólkárvirkjun á frammistöðu svæðiskerfisins.

Þessar prófanir munu orsaka straumleysi hjá notendum í Ísafjarðarbæ norðan Dýrafjarðar, í Bolungarvík og í Álftafirði.  Einnig má búast við einhverju straumleysi hjá notendum í Dýrafirði og sunnanverðum Vestfjörðum. 

Þriðjudagur 18. og miðvikudagur 19. nóvember
Til öryggis hefur Landsnet einnig sótt um leyfi fyrir prófanir aðfaranótt þriðjudagsins 18. og miðvikudagsins 19. nóvember ef þörf verður á að endurtaka prófanir vegna nýrra stillinga stjórnbúnaðar í Mjólkárvirkjun, virkni snjallnetsstýringa og virkni nýju varaaflstöðvarinnar í Bolungarvík fyrir stýringu svæðiskerfisins á Vestfjörðum.

Búast má við einhverju straumleysi umræddar nætur ef af þessum prófunum verður. Það er vissara fyrir íbúa á svæðinu að vera viðbúnir straumleysi og sem fyrr verður reynt að halda því í lágmarki.  Verði af þessum aukaprófunum verður það auglýst vel á heimasíðum fyrirtækjanna.

Nánari upplýsingar vegna prófananna verða birtar á heimasíðu Landsnets, landsnet.is og Orkubús Vestfjarða, ov.is og í öðrum fjölmiðlum ef þurfa þykir.

04. október 2024

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var...

30. september 2024

Íbúafundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Vegna vinnu við umhverfismat Kvíslatunguvirkjunar verður haldinn kynningarfundur á vegum Orkubús...

09. september 2024

Tímamótasamningur um sölu á forgangsorku

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,...