Með aukinni uppbyggingu í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum koma fram áhugaverð hliðarverkefni við fiskeldið, sem geta stuðlað að minni umhverfisáhrifum. Eitt af þeim verkefnum er að finna viðeigandi úrvinnslu á fiski, sem drepst í eldiskvíum á eldistímanum. Er það vegna sára, sjúkdóma eða hann verður undir í lífsbaráttunni í kvíunum einhverra hluta vegna. Algengt er að reikna með að um 4% af sláturþyngd fisksins drepist á eldistímanum.
Farga þarf seyru, sem kemur frá seiðaeldisstöðvum og er ein sú stærsta á landinu í botni Tálknafjarðar, á sama hátt laxinn. Í báðum tilvikum má þessi úrgangur ekki komast inní fæðukeðjuna aftur. Lífrænt sorp frá íbúum, slóg og annar úrgangur frá fiskvinnslum og fiskmörkuðum er keyrt til urðunar og er í mörgum tilvikum fargað á óviðunandi hátt.
Í Noregi hefur þetta hráefni verið sett í sýru til að koma í veg fyrir lyktarvandamál og síðan hefur meltan ásamt öðru hráefni verið notuð sem fóður fyrir niðurbrotslífverur, sem brjóta niður hráefnið. Við niðurbrotið myndast lífgas sem samanstendur að stórum hluta af metani og koltvísýringi auk annarra lofttegunda og lífgasið er síðan er notað til orkuframleiðslu. Fjarðalax, nú Arnarlax, Orkubú Vestfjarða og Matís fengu styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða síðastliðinn vetur til að skoða þessi mál. Hægt að skoða skýrsluna á slóðinni hér að neðan:
http://www.matis.is/media/matis/utgafa/12-16-Aukahraefni-fra-laxeldi.pdf
M.a. kom fram í skýrslunni að m.v. þær áætlanir sem eru um aukningu laxeldis á sunnanverðum Vestfjörðum gætu fallið til á bilinu 1.200 – 1.600 tonn af dauðfiski innan fárra ára auk annars hráefnis. Kostnaður við förgun þessa fisks gæti hlaupið á 40 – 60 milljónum króna á ári miðað við akstur og urðun í Fíflholti á Mýrum, sem er sá urðunarstaður sem næstur er. Kostnaður við uppsetningu lífgasvers, sem vinnur úr sambærilegu magni af hráefni, gæti verið á bilinu 80 – 120 milljónir en stærðarhagkvæmni ræður miklu um kostnað við lífgasver og rekstur þeirra. Á Patreksfirði rekur Orkubúið rafkynta hitaveitu og staðsetningin á lífgasverinu tók mið af því og notar orkuna beint inná hitaveituna.
Í verkefninu kom fram að skortur er á kolefnisríku hráefni til að blanda saman við fiskinn til að jafna hlutfall kolefnis og köfnunarefnis en fyrir niðurbrotslífverurnar er æskilegt hlutfall kolefnis um 30 á móti köfnunarefni. Kolefni fæst úr hálmi, kornvörum svo sem byggi og grænmetisafskurði svo dæmi séu tekin. Lítið framboð er af slíku hráefni á sunnanverðum Vestfjörðum og því þyrfti að flytja það annars staðar frá svo sem frá brugghúsum eða öðrum stórnotendum. Því gæti önnur hliðarbúgrein við fiskeldið hugsanlega orðið bjórverksmiðja á sunnanverðum Vestfjörðum til að fá kolefni í lífgasframleiðsluna.
Orkusvið
Sölvi R Sólbergsson