Orkubú Vestfjarða stefnir Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum vegna samnings um Úlfsá

18. apríl 2018

Orkubú Vestfjarða hefur stefnt Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf. fyrir Héraðsdóm Vestfjarða og krefst þess að samningur þessara aðila um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá á Dagverðardal frá 24. janúar 2018 verði ógiltur. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði fyrir dómi að allur réttur til virkjunar fallvatns í Úlfsá sé eign Orkubús Vestfjarða.

Í stefnunni er vísað til þess að við stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir 40 árum voru lagðar inn í félagið eignir RARIK á Vestfjörðum og rafveitur og virkjanir sem sveitarfélögin ráku. Einnig lögðu sveitarfélögin inn í félagið vatnsréttindi sem þau áttu, bæði þau sem voru þekkt og óþekkt á þeim tíma. Með þessu var verið að tryggja til framtíðar getu félagsins til raforkuframleiðslu. 

Með undirritun samnings þann 1. desember 1978 afsalaði Bæjarstjórn Ísafjarðar öllum eigum Rafveitu Ísafjarðar auk annarra réttinda til Orkubúsins. Í 5. grein samningsins segir orðrétt: „Ennfremur afsalar bæjarstjórn Ísafjarðar Orkubúi Vestfjarða borholum sínum í Tungudal með tilheyrandi hitaréttindum og öllum rétti til virkjunar vatnsafls, jarðhita eða fallvatns sem kaupstaðurinn á eða kann að eiga í löndum sínum eða annars staðar og hann kann að hafa samið um. Nær þetta jafnt til þekktra sem óþekktra réttinda.“

Þrátt fyrir þetta afsal hefur Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar undirritað fyrrnefndan samning um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá til AB-Fasteigna ehf. Þá vekur athygli að í samningnum við AB-Fasteignir ehf. er settur sá fyrirvari að komi í ljós að Ísafjarðarbær sé ekki lögmætur eigandi alls lands og vatnsréttinda í Úlfsá falli samningurinn niður báðum aðilum að skaðlausu.

Ekki aðrir kostir í stöðunni

Af hálfu Orkubús Vestfjarða var strax brugðist við samningi Bæjarstjórnar Ísafjarðar og AB-Fasteigna ehf. og með bréfi orkubússtjóra til bæjarstjórnar var lýst undrun og bent á að bærinn gæti ekki ráðstafað þeim réttindum sem þar hafði verið samið um því þau væru í lögmætri eigu Orkubúsins. Þar sem samskipti við bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um þessi ólögmætu viðskipti hafa ekki borið árangur á Orkubúið ekki annan kost í stöðunni en að höfða mál á hendur Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf. til að tryggja rétt sinn. 

Stjórnarskrárvarin réttindi

Forsenda reksturs Orkubús Vestfjarða byggir á því að virkjun þess vatnsafls sem Orkubúið á verði á þess höndum. Nú þegar fyrir liggur að virkjun réttinda í Úlfsá er orðin fjárhagslega fýsileg er það skýlaust brot á stjórnarskrárvörðum rétti Orkubúsins og fjölmörgum öðrum lagaákvæðum að Ísafjarðarbær leggi eign Orkubúsins undir sig með þeim hætti sem gert var með samningnum við AB-Fasteignir ehf.

Í ljósi þessa er það skylda stjórnar félagsins að leita til dómstóla til að gæta hagsmuna þess varðandi eignarhald og umráðarétt eigna sem voru lagðar inn í félagið við stofnun þess.

Frekari upplýsingar veitir Elías Jónatansson, orkubússtjóri, sími 892 4461

04. október 2024

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var...

30. september 2024

Íbúafundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Vegna vinnu við umhverfismat Kvíslatunguvirkjunar verður haldinn kynningarfundur á vegum Orkubús...

09. september 2024

Tímamótasamningur um sölu á forgangsorku

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,...