Orkubú Vestfjarða hefur fengið vottun á starfsemina samkvæmt gæðastjórnunarkerfinu ISO 9001:2015 frá British Standards Institute, BSI. BSI á Íslandi er faggild skoðunarstofa og jafnframt umboðsaðili BSI Group á Íslandi.
Framkvæmdastjóri BSI á Íslandi, Árni H. Kristinsson, kom nýlega í heimsókn á Ísafjörð og afhenti Elíasi Jónatanssyni orkubússtjóra staðfestingu á vottuninni. Hann var einnig með fyrirlestra fyrir starfsfólk Orkubúsins.
Gæðastefna Orkubús Vestfjarða er að:
- vera ábyrgt fyrirtæki sem nýtur trausts viðskiptavina sinna og veitir þeim þjónustu af bestu mögulegu gæðum og með fullnægjandi afhendingaröryggi.
- vera meðvitað um áhrif starfssemi fyrirtækisins á umhverfið og draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum svo sem kostur er.
- vera fyrirmyndar vinnustaður þar sem aðbúnaður, hollusta og öryggi starfsmanna er sett í öndvegi.
- vera fyrirtæki sem uppfyllir ávallt opinberar kröfur og aðrar kröfur sem gerðar eru til starfseminnar.
- vera fyrirtæki sem fer að kröfum ISO 9001 staðalsins og vinnur að stöðugum umbótum.
Orkubúið hefur haft vottun samkvæmt ISO 9001 frá árinu 2013. Í nýja staðlinum er gæðastjórnunarkerfið samþættað betur við daglega stjórnun fyrirtækisins. Aðaláherslur eru m.a. á áhættu-og breytingastjórnun, staðreyndabundna nálgun við ákvarðanatöku og stöðugar umbætur.
Frá vinstri Bjarni Sólbergsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Sölvi R. Sólbergsson framkvæmdastjóri orkusviðs, Halldór V. Magnússon framkvæmdastjóri veitusviðs, Árni H. Kristinsson framkvæmdasjóri BSI á Íslandi, Ragnar Emilsson deildarstjóri eftirlitsdeildar og gæðastjóri og Elías Jónatansson orkubússtjóri.