NÝIR ORKUMÆLAR NOTENDUM TIL HAGSBÓTA
Ágæti viðskiptavinur!
Á undanförnum árum hefur Orkubú Vestfjarða sett upp nýja orkumæla á heimilum, snjallmæla sem mögulegt er að lesa af mánaðarlega í fjarálestri. Þar með er tækifæri til að leysa af hólmi eldra kerfi við innheimtu, þar sem sendir voru út jafnaðarreikningar sem byggðust á áætlun út frá 1/12 af ársnotkun undanfarins árs, sem síðan var rétt af með álestri í lok þessara 12 mánaða.
Meira en 85% notenda í þéttbýli eru nú með slíka mæla sem hægt er að ná fjarsambandi við. Þeir notendur munu framvegis fá reikning sem verður í samræmi við orkunotkun undangengins mánaðar. Aðrir notendur munu áfram fá áætlunarreikning eins og áður.
Flest fyrirtæki á svæði Orkubúsins hafa nú í meira en eitt ár fengið mánaðarlega reikninga í samræmi við raunnotkun sína í stað áætlunarreikninga. Það hefur mælst mjög vel fyrir. Þá hafa æ fleiri almennir notendur óskað eftir að fá reikninga í samræmi við mánaðarlega notkun, m.a. til að vera meðvitaðri um orkunotkun sína.
Eldra kerfi
Gamla kerfið hafði ýmsa ókosti í för með sér. Breytingar á orkunotkun sem koma fram á reikningi eru ekki að skila sér til innheimtu fyrr en við álestur í lok 12 mánaða tímabilsins. Nýju mælarnir stuðla hins vegar að því að notendur verða mun fyrr varir við hugsanlega bilun í eigin kerfum, vegna hærri mánaðarreiknings. Bilaður ofnkrani eða snjóbræðsla sem gleymist á yfir sumartímann eru dæmi um það þegar aukin notkun kemur jafnvel ekki í ljós fyrr en löngu síðar. Reikningar vegna heitra potta í garðinum eru sömuleiðis dæmi um það sem hefur komið aftan að fólki þegar uppgjörsreikningur kom í lok 12 mánaða tímabils.
Orkureikningar verða breytilegir eftir árstímum
Það segir sig sjálft að yfir vetrartímann, þegar kalt er í veðri, er orkunotkun meiri en yfir sumarið. Þess vegna má búast við að reikningar verði breytilegir á milli mánaða en á móti kemur að þeir eru í takt við notkun hverju sinni, sjá dæmi á mynd. Á endanum er það auðvitað notandinn sem stýrir eigin orkunotkun og myndin sýnir einungis dæmi um breytileika í notkun yfir árið. Aukin meðvitund um orkunotkun getur lækkað orkureikninginn. Það er von okkar að þessi breyting komi notendum vel og auki meðvitund um orkunotkun. Með rafrænum skilríkjum geta notendur skoðað orkunotkun sína aftur í tímann á Mínum síðum á ov.is, auk þess að skoða reikningsyfirlit og einstaka reikninga. Á vef Orkubúsins, ov.is, er einnig að finna ýmis Góð ráð um orkusparnað, stillingu hitakerfa og upplýsingar um orkunotkun heimilistækja. Við mælum með því að kynna sér þau.
Stöðugt er unnið að því að koma fleiri notendum í fjarálestur með uppsetningu mæla og fjarskiptabúnaðar, en þar til fjarálestur er virkur munu þeir notendur fá áætlunarreikninga með árlegu uppgjöri. Rétt er að benda notendum á að viðskiptabankarnir bjóða viðskiptavinum sínum upp á greiðsludreifingu á óreglulegum útgjöldum eins og hér um ræðir.
Með kveðju,
Elías Jónatansson Orkubússtjóri