Orkuskiptin
Orkuskiptin kalla á vangaveltur um hvort þörf sé á nýjum virkjunum. Ef útrýma á jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa á Íslandi þarf að afla 16 TWst á ári, til viðbótar við árlega raforkuframleiðslu nú, 20 TWst, (Orkuskipti.is). Árlegur innflutningur olíu kostar 100 milljarða. Það skiptir þó máli hvar er virkjað ef markmiðið er að ná hámarks árangri í verndun loftslags. Dreifing aflstöðva um landið er einnig mikilvæg fyrir orkuöryggi þjóðarinnar.
Lítum okkur nær
Vestfirðingar fá helming raforku sinnar eftir einni 160 km langri Vesturlínu, frá tengivirki Landsnets (LN) fyrir botni Hrútafjarðar, í tengivirkið í Mjólká við Mjólkárvirkjun. Orkan á líklega oftast upptök sín í Blönduvirkjun í 100 km fjarlægð frá Hrútafirði. Orkan er því flutt 260 km leið frá orkustöð, í tengivirkið í Mjólká, með tilheyrandi töpum. Hinn helmingurinn er framleiddur innan Vestfjarða og er Orkubú Vestfjarða (OV) þar stærsti orkuframleiðandinn og eini framleiðandinn sem hefur einhvern varaforða sem heitið getur í lónum við sínar virkjanir. Stærsta virkjun OV er Mjólkárvirkjun, 11 MW, en samtals eru virkjanir í eigu OV og einkaaðila á Vestfjörðum 21 MW.
100% varaafl hefur reynst nauðsynlegt
Til að tryggja afhendingaröryggi á Vestfjörðum þegar flutningslínur eru straumlausar hefur verið komið upp neti varaflsvéla víða um Vestfirði. Stærsta varaaflsstöðin er í Bolungarvík, 11MW dísil-stöð í eigu (LN), byggð árið 2015. Varaflsstöðin er jafn stór Mjólkárvirkjun. Á Patreksfirði er 4,7 MW dísil-stöð OV (mikið endurnýjuð 2018), en OV er með 11 varaaflsstöðvar um alla Vestfirði alls 18 MW. Varaaflsstöð LN ásamt nokkrum varaaflsstöðvum OV eru búnar sjálfvirkni og ræsa inn á net á innan við 90 sek, ef raforkunetið verður straumlaust, vegna bilana eða viðhalds.
Það hefur sýnt sig að Vestfirðir þurfa í dag að vera með 100% (dísil) varaafl fyrir raforku til heimilisnota og til þeirra fyrirtækja sem nota forgangsorku til að tryggja ásættanlegt afhendingaröryggi. Þá þarf 100% varaafl í formi olíukatla við straumleysi í stað rafkyntu hitaveitnanna. Varafl á Vestfjörðum í formi dísil-véla og olíukatla er um 50 MW í dag.
Á að „virkja“ tvisvar vegna sömu notkunar?
Til að halda óbreyttu þjónustustigi við notendur á Vestfjörðum með aukinni orkunotkun vegna orkuskipta og uppbyggingar atvinnulífs, þá þyrfti enn að auka við dísil-knúið varaafl. Fyrir hver 10 MW sem orkunotkunin eykst á Vestfjörðum þarf þá ekki bara að virkja 10MW einhversstaðar á landinu heldur þarf líka að „virkja“/ fjárfesta í 10MW í dísil-varaafli innan Vestfjarða – virkja þannig tvisvar vegna sömu eftirspurnar. Varðandi kostnað við 10 MW varaafl má hafa til hliðjónar fjárfestingu í áðurnefndri varaaflsstöð LN árið 2015 - kostnaðaráætlun 1,5 milljarðar. Það er augljóst að það stríðir gegn allri skynsemi. Virkjun innan svæðisins gerir hins vegar aukið varaafl óþarft.
Fjárfesting í varaafli er gríðarleg nú þegar á Vestfjörðum og hver framleidd kWst í varaafli mjög dýr, ekki síst þegar olíuverð er hátt. Útreiknað einingarverð varaafls er í dag nálægt 70 kr/kWst sem er meira en tífalt söluverð raforku frá vatnsaflsvirkjun.
Orkuframleiðsla í héraði og varaaflið verður grænt
Það er hægt að koma upp virkjun innan svæðisins, í seilingarfjarlægð frá mestu notkuninni, sem hefur nægilegt afl og nægilegt vatn í lónum til að mæta orkuþörf innan Vestfjarða þegar flutningslínur inn á Vestfirði verða straumlausar. Með því að slík virkjun sé nægilega aflmikil til að mæta aflþörfinni innan Vestfjarða ásamt öðrum virkjunum þá þarf í flestum tilfellum ekki að ræsa dísil-knúið varaafl. Þar sem aflið í virkjuninni er auðvitað ekki dísil-knúið heldur vatnsafl er í raun búið að tryggja afhendingu með vatnsafli og varaaflið þá orðið grænt.
Með byggingu virkjunar er ekki einungis verið að snúa við þeirri stefnu að auka sífellt við varaaflið í formi dísil-véla heldur mun draga stórkostlega úr notkun þess varaafls sem fyrir er eða um 90%.
Nærtækasta dæmið um slíka virkjun er 20 – 30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun gæti straumleysistilfellum hjá 90% Vestfirðinga fækkað um 90% og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90%.
20km eða 260km vegalengd að virkjun
Það þarf enga sérfræðinga til að átta sig á muninum á því að flytja orkuna 20 km langa leið úr virkjun í Vatnsdal eða 260 km langa leið frá Blönduvirkjun. Munurinn birtist m.a. í verulega minni orkutöpum. Virkjun í Vatnsdal er hagkvæm og óhætt er að fullyrða að margt bendir til að umhverfisáhrif vegna virkjunarinnar séu mun minni en af öðrum virkjunarkostum, auk þess sem hún hefur bein jákvæð áhrif á loftslagsmálin vegna minni notkunar varaafls með tilheyrandi brennslu á olíu. Enginn annar álíka stór virkjunarkostur á Vestfjörðum er svo nálægt megin eftirspurninni.
Elías Jónatansson