Rafkyntar hitaveitur Orkubús Vestfjarða eru eins og nafnið gefur til kynna, drifnar með rafkötlum, en við útslætti á rafmagni eru olíukatlar notaðir í stað rafkatla, sem varaafl. Markmið þessarar greinar er að útskýra hvernig gjaldtöku fyrir orkunotkun þeirra sem tengdir eru rafkyntum hitaveitum er háttað.
Mælar hjá mörgum öðrum hitaveitum eru magnmælar – þeir eru á útleið
Það hefur borið á því að undanförnu að ýmsir notendur rafkyntra hitaveitna telji að Orkubúið noti eingöngu rúmmetra mæla þ.e. mæla sem mæla einungis þá rúmmetra vatns sem afhentir eru, líkt og gert er í mörgum jarðhitaveitum. Það er hins vegar ekki rétt, Orkubúið er ekki með slíka mæla. Mælar Orkubúsins sem kallaðir eru „orkumælar“ mæla bæði magnið og orkuna sem afhent er hjá notanda. Eingöngu eru notaðir löggiltir mælar hjá Orkubúi Vestfjarða. Fyrirtækið hefur jafnframt fengið vottun á starfsemi sína samkvæmt gæðastjórnunarkerfinu ISO 9001:2015 frá British Standards Institute, BSI. Þess má geta að jarðhitaveitum sem nota eingöngu magn mæla (rúmmetramæla) fer stöðugt fækkandi.
Orkubúið hefur frá upphafi notað orkumæla sem reikna bæði afhenta orku og vatnsmagn
Hið rétta er að Orkubú Vestfjarða hefur í meira en 40 ár notað svokallaða orkumæla til að mæla orkunotkun hjá notendum rafkyntra hitaveitna. Mælarnir sem notaðir eru í dag eru fullkomnir mælar sem hægt er að lesa af í fjarálestri. Þeir nema þrjú gildi hjá notendum, en þau eru, í fyrsta lagi hitastig vatnsins inn í húsið (framrásarhita), í öðru lagi hitastig vatnsins út úr húsinu (bakrásarhita) eftir að það hefur runnið um ofnakerfið og í þriðja lagi það magn, rúmmetra (m3) af heitu vatni sem streymir inn og út úr húsinu á sama tíma. Þessi þrjú gildi nægja til að reikna út orkuna sem verið er að nota hverju sinni. Orkan er reiknuð í kWst (kíló-watt-stundum).
Með því að rukka sérstaklega fyrir magnið er veitan hins vegar að reyna að draga úr kostnaði við hringrásardælingu í hitaveitukerfinu.
Að auki greiða allir notendur „Fastagjald“ sem rukkað er fyrir hvern dag, óháð notkun.
Orkumælirinn er í raun notaður sem tæki til að jafna innbyrðis aðstöðumun notenda óháð staðsetningu í dreifikerfinu og draga eftir því sem unnt er úr muninum á kostnaði notenda sem fá afhent heitt vatn á mismunandi hitastigi. Þetta skýrist best með dæmum.
Framrásarhiti hjá notanda og áhrif hans á orkureikninginn
Rafkyntar hitaveitur eru ávallt með svokallað hringrásarkerfi þannig að vatnið sem kemur frá notanda er flutt að kyndistöð og endurnýtt. Notandinn greiðir eingöngu fyrir orkuna sem hann tekur úr vatninu þ.e. mismuninn á hitanum (orkunni í vatninu) inn í húsið (framrásarhita) og hitanum (orkunni í vatninu) út úr húsinu (bakrásarhita). Þessi hitamunur er á slæmri íslensku oft kallaður „delta t“.
Umræða hefur skapast um framrásarhitastig hjá notendum og áhrif þess á orkureikninginn. Í verðskrá OV fyrir hverja hitaveitu er miðað við ákveðið hitastig frá kyndistöð, t.d. 74°C eða 70°C. Þegar heita vatnið kemur hins vegar að inntaki notenda hefur hitastig þess lækkað. Í hefðbundinni hitaveitu sem mælir eingöngu magn af heitu vatni er ekki mögulegt að leiðrétta fyrir þessum mismun. Það er hins vegar gert að lang mestu leyti með notkun orkumæla eins og OV notar.
Verðið á rúmmetra 74°C heits vatns er hærra en verðið á rúmmetra 70°C heits vatns, vegna þess að heitara vatnið inniheldur meiri orku, enda þarf sá notandi sem tengdur er kyndistöð með 70°C heitt vatn, meira vatn en sá sem tengdur er kyndistöð með 74°C heitt vatn.
Rétt er að benda á að framrásarhitinn hjá tilteknum notanda getur líka verið mjög mismunandi eftir dögum, eftir því hversu mikið álag er á hitaveitukerfinu öllu. Í miklu frosti þegar álag er mikið má búast við hærri framrásarhita en í sumarhita þegar álag á hitaveituna er lítið. Orkumælir notanda leiðréttir sjálfkrafa fyrir þessum mismun á framrásarhita þar sem hann fylgist stöðugt með hitastigi framrásar og bakrásar hjá hverjum og einum notanda. Orkumælirinn er því í raun frábært tæki til að taka tillit til mismunandi framrásarhita og jafna innbyrðis aðstöðumun notenda óháð staðsetningu í dreifikerfinu þannig að munurinn á kostnaði notenda verði hverfandi. Þetta skýrist best með dæmum.
Dæmi um hitastig frá kyndistöð, orkumagn, vatnsmagn og orkuverð á veitusvæðum
Reiknað orkumagn úr heita vatninu fæst með því að margfalda magnið af heitu vatni í rúmmetrum og meðal-hitafalli þess hjá notanda með ákveðnum fasta. Þannig fæst orkunotkunin í kWst fyrir gefið tímabil (mánuð). Við skulum taka dæmi um tvær íbúðir sem eru hvor á sínu hitaveitusvæði og lúta tveimur mismunandi verðskrám vegna mismunandi hita frá kyndistöð. Dæmin eru þannig sett upp að íbúðirnar séu jafn stórar, hitalækkunin frá kyndistöð að notanda sé 3°C í báðum tilfellum og íbúðirnar séu að nota nákvæmlega jafn mikla orku. Hitafallið og magnið af heita vatninu er hins vegar mismunandi vegna mismunandi framrásarhita hjá þessum tveimur notendum:
Dæmi 1 – hiti frá kyndistöð 70°C en framrásarhiti notanda 67°C (Holtahverfi í Skutulsfirði)Íbúðin notar 83 m3 af heitu vatni yfir mánuðinn.
Hitafallið er að meðaltali 33 °C og bakrásarhitastig verður þá 34 °C, (67-33=34).
Þá væri orkunotkunin 3.300 kWst.
Kostnaður yfir mánuðinn samkvæmt verðskrá OV er þá kr. 25.751,- eftir að tekið hefur verið tillit til niðurgreiðslu.
Dæmi 2 – framrásarhiti frá kyndistöð 74°C en framrásarhiti notanda 71°C
(Bolungarvík, Flateyri, Patreksfjörður og Skutulsfjarðareyri)Hér er dæmi um íbúð sem notar jafn mikið orkumagn og íbúðin í dæmi 1.
Íbúðin notar þó minna magn af vatni eða 71 m3 yfir mánuðinn.
Hitafallið er að meðaltali er 38,5 °C og bakrásarhitastig verður 32,5°C , (71-38,5=32,5).
Orkunotkunin reiknast þá 3.300 kWst.
Kostnaður fyrir mánuðinn er kr.25.750,- eftir að tekið hefur verið tillit til niðurgreiðslu.
Mismunurinn á reikningum þessara tveggja notenda felst i því að í fyrra dæminu þarf notandinn að greiða fyrir 83 rúmmetra eða 12 rúmmetra umfram notandann í því síðara sem greiðir fyrir 71 m3. Sá notandi sem fær heitara vatn greiðir meira fyrir hvern rúmmetra, enda er meiri orka í hverjum rúmmetra af heitara vatni og hann nær að nýta meira hitafall úr vatninu eða 38,5°C á móti 33°C hitafalli notanda í dæmi 1. Á endanum er það gjald sem hvor um sig greiðir fyrir alla orkuna og rúmmetrana sem þeir nota hið sama, fjöldi kWst er hinn sami og heildarfjárhæð reiknings deilt niður á kWst hið sama þannig að heildarmunur á reikningi verður því enginn (1 kr.)
Framrásarhitastig hjá notendum ræðst líka af heildarálagi veitunnar og útihitastigi
Jafnvel þótt reynt sé að hafa hitastigið frá kyndistöð OV sem stöðugast, þá getur hitastigið við húsvegg notenda verið breytilegt. Ástæðan er sú að vatnið kólnar alltaf á leiðinni frá kyndistöð að notanda. Mestur getur munurinn orðið á heitum dögum á sumrin þegar lítið álag er á kerfinu. Þá er vatnið lengur á leiðinni vegna lítillar notkunar og kólnar þá meira í lögninni. Á köldum degi á veturna þegar mikið streymi er í stofnlögnum OV þá gætir þessarar kælingar minna, þrátt fyrir að kaldara sé í veðri. Þá er framrásarhitinn (hitinn inn í húsið) jafnan hæstur hjá notendum.
Hiti frá dælustöðvum hitaveitna fer lækkandi
Aukinn áhugi er á nýtingu jarðvarma á lægri hita en áður sem þýðir að framrásarhiti hjá notendum verður lægri. Framfarir í gólfhitalögnum hefa ýtt undir þá þróun.
Lægri hiti frá dælustöð getur haft talsvert jákvæð áhrif á heildarnýtingu kerfisins þar sem minni varmatöp verða í stofnlögnum frá kyndistöð að notendum. Það hefur bein áhrif á afkomu veitunnar og getu hennar til að bjóða samkeppnishæfari verð.
Elías Jónatansson,
orkubússtjóri