Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða fyrir dreifingu á rafmagni og hitaveitu hækka frá og með 1. janúar 2024. Orkubú Vestfjarða starfar undir eftirliti Orkustofnunar og fær úthlutað fyrir fram ákveðnum tekjuheimildum ár hvert. Orkubú Vestfjarða hefur haldið gjaldskrá lægri en heimilt hefur verið og ekki fullnýtt þann tekjuramma sem Orkustofnun úthlutar fyrirtækinu með hag neytenda og samfélagsins á Vestfjörðum að leiðarljósi. Almennar verðlagshækkanir sl. ár, flutningskostnaður og hækkanir helstu birgja Orkubúsins, orkuskipti og orkuskortur kalla á hækkun gjaldskrár að þessu sinni.
Hækkun vegna flutningskostnaðar 5,2%
Í tilkynningu sem Orkubú Vestfjarða barst frá Landsneti var boðuð veruleg hækkun á flutningsgjöldum, eða allt að 15,9%. Veldur þetta 5,2% hækkun til viðskiptavina Orkubúsins, en Orkubúið innheimtir flutningsgjöldin fyrir Landsnet og greiðir beint til fyrirtækisins, enda fer stærstur hluti orkunnar sem dreift er af Orkubúi Vestfjarða um flutningskerfi Landsnets.
Hækkun vegna almennra verðlagshækkana 6,4%
Aðrar hækkanir upp á 6,4% eru innan við almennar verðlagshækkanir í samfélaginu sl. 12 mánuði, en verðbólga mælist 8% á sama tímabili.
Samtals hækkun dreifingar og flutnings raforku 11,6%
- Gjaldskrá í þéttbýli hækkar um 11,6% (þar af 5,2% vegna flutningsgjalda Landsnets)
- Gjaldskrá í dreifbýli hækkar um 11,6% (þar af 5,2% vegna flutningsgjalda Landsnets)
- Fastagjald hækkar um 11,6% og aðrir liðir um 6,0%
Hækkun gjaldskrár hitaveitu 6 – 7,7%
Orkubúið hækkar verð á hitaveitu til þess að mæta auknum kostnaði í rekstri fjarvarmaveitna. Kostnaður vegna orkuöflunar er um 80% af öllum rekstrarkostnaði fjarkyntra fjarvarmaveitna. Skerðanleg orka frá Landsvirkjun sem notuð er á katla Orkubúsins hækkar um 5,4% frá og með 1.janúar 2024 skv. tilkynningu Landsvirkjunar til Orkubúsins. Þá hefur talsverður (rannsóknar) kostnaður komið til vegna öflunar á heitu vatni fyrir jarðvarmaveiturnar.
Árið 2022 var mikill hallarekstur á rafkyntum fjarvarmaveitum Orkubús Vestfjarða vegna mikils kostnaðar við olíukeyrslu rekstrarárið 2022. Hækkun um rúmlega 2% hefur verið sett inn í gjaldskrána til þess að vega upp tapið að hluta, reiknað er með að hækkunin vinni upp tapið á rúmlega 10 árum.
- Gjaldskrá fyrir heitt vatn hækkar um 7,7% fyrir fjarvarmaveitur
- Gjaldskrá fyrir heitt vatn hækkar um 6,0% fyrir jarðvarmaveitur.
- Almenn þjónustu- og tengigjöld hækka um 6,0%
Nýjar gjaldskrár fyrir bæði hitaveitu og dreifingar má finna á www.ov.is/thjonusta/upplysingar/verdskrar
Upprunavottorð – Græn skírteini
Árið 2024 verða græn skírteini seld sérstaklega með raforkunni frá Orkubúi Vestfjarða, en viðskiptavinir hafa um það val hvort þeir kaupi vottaða græna orku eða ekki. Orkubúið fylgir þar fordæmi allra stærri orkusalana í landinu, sem þegar hafa innleitt þennan valkost í sínar gjaldskrár. Tilgangur vottunarinnar (grænu skírteinanna) er að ýta undir framleiðslu á grænni orku umfram orku sem framleidd er á ósjálfbæran hátt, t.d. með jarðefnaeldsneyti.
Viðskiptavinir hafa val um að greiða hærra verð fyrir vottun
Það er alfarið í höndum viðskiptavina hvort þeir kjósa að greiða sérstaklega fyrir að orkunotkun þeirra sé vottuð sem græn.
Þeir sem kjósa að kaupa vottun (græn skírteini) með raforku frá Orkubúi Vestfjarða þurfa að fara inn á mínar síður Orkubúsins (minarsidur.ov.is) og velja „Upprunaábyrgðir“.
Ef viðskiptavinur óskar ekki sérstaklega eftir því að fá vottaða orku, getur hann ekki reiknað með að fá orkunotkun sína síðar vottaða með upprunaábyrgð. Orkubúið reiknar þá með að hann kjósi ekki að kaupa slíka vottun með keyptri raforku frá Orkubúi Vestfjarða.