Orkuskortur kostar 520 milljónir !

02. janúar 2024

Engum dylst að raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi.  Ekki eru þó öll sund lokuð því við getum áfram treyst á jarðefnaeldsneyti til að þreyja þorrann og góuna og flytjum inn eina miljón tonna ár hvert.  Því miður stefnir í það að á árinu 2024 fimmtánfaldist olíunotkun Orkubús Vestfjarða frá árinu í ár, fari úr 220 þús. lítrum í 3,4 milljónir lítra.  Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9.200 tonn.  Hægt er að vinna bug á þessu vandamáli og sóun fjármuna með virkjun innlendrar orku.

Rafkyntar hitaveitur og Vesturlína
Orkubú Vestfjarða hefur rekið rafkyntar hitaveitur frá 1980 eða í 43 ár, en á sama tíma kom Vesturlína sem tengir Vestfirði við raforkukerfi landsins. Línan er tréstauralína og mun því þarfnast verulegrar endurnýjunar (eða tvöföldunar) innan tíðar ef afhendingaröryggið um línunna á ekki að minnka.

Þegar framboð skerðanlegrar orku er nægt, eru innan við 3% hitaorku kyndistöðva á ári framleidd með olíu, aðallega vegna útslátta á flutningslínum og skipulagðs straumleysis, þegar unnið er að fyrirbyggjandi viðhaldi.  Þegar ekki fæst skerðanleg orka inn á kerfið getur hlutfall orku frá hitaveitum sem á uppruna sinn í olíu, hæglega orðið 20 – 30% á ársgrundvelli.    

3,4 milljónir lítra af olíu til vors
Vandamálið sem nú blasir við er mun nær í tíma, vegna skerðingar á afhendingu raforku til rafkyntra hitaveitna.  Skerðingin er í samræmi við samning Orkubúsins við Landsvirkjun sem heimilt er að skerða t.d. vegna lágrar stöðu í uppistöðulónum, eins og nú er raunin, en skerðanleg orka er mun ódýrari en forgangsorka.

Slíkar skerðingar voru sjaldgæfar, en árið 2014 þurfti þó að keyra olíukatla hitaveitna í tvo mánuði.  Árið 2022 þurfti svo að keyra olíukatla í 54 daga vegna skerðingar á afhendingu raforku.  Nú tveimur árum síðar stefnir í skerðingar frá og með 19. janúar 2024, sem getur staðið til 30. apríl eða í 103 sólarhringa.  Brenna þarf 3,4 milljónum lítra af olíu vegna skerðingarinnar.  Það gæti jafnast á við ársnotkun eldsneytis hjá fjögur þúsund fólksbílum sem aka 15 þús. km/ári og eyða 5,5 l/100 km.

Aukakostnaður 520 milljónir
Nettó kostnaður Orkubúsins vegna skerðingarinnar 2022 nam um 200 m.kr.  á þágildandi verðlagi og þótti mörgum þótti þá nóg um.  Skerðingin sem nú stefnir í er margfalt alvarlegri því gert er ráð fyrir að hún vari í allt að 103 daga auk þess sem verðlag á olíu hefur hækkað.  Kostnaður Orkubúsins vegna skerðingarinnar stefnir í um 520 milljónir króna, sem jafngildir 74 þús. krónum á hvern Vestfirðing.  Það er augljóst mál að þetta ástand er orðið óviðunandi, því að lokum lendir kostnaðurinn hjá notendum.  

Viðbrögð Orkubúsins - jarðhitaleit
Blikur hafa verið á lofti vegna reksturs rafkyntra hitaveitna í allnokkur ár. Orkubú Vestfjarða hóf því jarðhitaleit í grennd við rafkyntar hitaveitur á Vestfjörðum árið 2019 samkvæmt rannsóknaráætlun sem unnin var af ÍSOR.  Að Laugum í Súgandfirði fannst aukinn jarðhiti, en leit í Bolungarvík og á Flateyri skilaði ekki árangri.  Rannsóknarboranir hafa staðið yfir í sumar, bæði á Ísafirði og á Patreksfirði.  Skemmst er frá því að segja að búið er að finna volgt vatn, um 25°C á Patreksfirði, vonandi í nægilegu magni til að nýta á miðlæga varmadælu.  Leit stendur þó ennþá yfir í þeirri von að að hægt sé að stækka hitaveitukerfið fyrir framtíðarnotkun.  Leitin í ár hefur hlotið 75% styrk frá orkusjóði.  Ennþá er unnið að rannsóknarborunum á Ísafirði, en ekki er hægt að segja fyrir um niðurstöður að svo stöddu, þótt vonir standi til að heitt vatn finnist í nægilegu magni.  Einnig er mögulegt að eingöngu finnist vatn á lægra hitastigi líkt og á Patreksfirði sem hugsanlega gæfi þá möguleika á að setja upp miðlæga varmadælu fyrir Ísafjörð.

Aukning forgangsorku
Vonandi er hægt að fasa út stórum hluta af rafmagni til rafkyntra hitaveitna á Vestfjörðum  með jarðhita og forgangsraforku til að knýja varmadælur.  Markmið Orkubúsins hefur verið að fasa út 12MW af 16MW afltoppi rafkyntu veitnanna.  Ef ekki finnst meira en 30°C heitt vatn á Ísafirði þá væri hugsanlegt að fasa út helmingi eða 8MW af 16MW.  Nauðsynlegt er að auka afltopp forgangsorku á Vestfjörðum, m.a. til að knýja varmadælur, á kostnað skerðanlegrar orku. Í dag er það afl ekki til innan Vestfjarða og ef ætlunin er að streyma aukinni orku um Vesturlínu, þá er augljóst að byggja þarf upp samsvarandi olíuknúið varaafl innan Vestfjarða þótt ekki sé nema til að tryggja óbreytt afhendingaröryggi þegar línan er úti. 

Virkjun vatnsafls – raunhæfasti kosturinn
Að teknu tilliti til aukningar í eftirspurn, afhendingaröryggis og stöðugleika raforkukerfisins auk raunhæfra áætlana um uppbyggingu flutningskerfisins og uppbyggingartíma virkjana þá er það alveg ljóst að taka þarf ákvarðanir um framhaldið fljótlega.  200 til 500 milljónir króna í  olíubrennslu kyndistöðva annað hvert ár er fórnarkostnaður sem er  óásættanlegur auk þess að vera algjörlega úr takti við orkustefnu stjórnvalda og við stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Elías Jónatansson,
orkubússtjóri

04. október 2024

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var...

30. september 2024

Íbúafundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Vegna vinnu við umhverfismat Kvíslatunguvirkjunar verður haldinn kynningarfundur á vegum Orkubús...

09. september 2024

Tímamótasamningur um sölu á forgangsorku

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,...