Breytingar á verðskrá Orkubús Vestfjarða 1. Janúar 2025

09. janúar 2025

Verðskrár Orkubús Vestfjarða taka eftirfarandi breytingum frá og með 1. Janúar 2025.

Dreifing og flutningur raforku.

Landsnet hefur ákveðið að hækka gjaldskrá sína á flutningi raforku til dreifiveitna um 15% frá og með 1. janúar 2025. Orkubúið innheimtir flutningsgjöldin f.h. Landsnets, en þau eru felld inn í verðskrá Orkubúsins.

Stærstur hluti raforkunnar sem dreift er af Orkubúi Vestfjarða fer um flutningskerfi Landsnets og  til að mæta 15% hækkun Landsnets þarf Orkubúið því að hækka sína verðskrá um 3,6%.  Aukning á tekjum OV vegna hækkunarinnar ratar beint til Landsnets og hefur ekki áhrif á afkomu Orkubúsins.

Breyting á kostnaði við upphitun

Orkubúið hækkar verðskrá hitaveitu frá 1. janúar, til þess að mæta auknum kostnaði í rekstri fjarvarmaveitna. Árið 2024 var sérstaklega erfitt ár fyrir rekstur rafkyntra hitaveitna í kjölfar skerðingar Landsvirkjunar á skerðanlegri raforku janúar 2024 – maí 2024, sem leiddi til þess að brenna þurfti dísel olíu fyrir rúmar 600 milljónir.  Slæmar horfur varðandi afhendingu á skerðanlegri orku næstu árin sem leitt gæti til gríðarlegra útgjalda hjá Orkubúinu urðu hvati þess að leitað var til Landsvirkjunar um kaup á forgangsorku í stað skerðanlegrar orku.  Samningur um kaup á forgangsorku frá Landsvirkjun í stað skerðanlegrar orku náðist í haust.

Samningurinn er tímabundinn til fjögurra ára og kemur rafkyntu fjarvarmaveitum í nokkurt var þar til farið verður að nýta jarðhitavatn, t.d. í Tungudal á Ísafirði og aðrar lausnir við orkuöflun hitaveitnanna. Þó svo að nýr samningur sé Orkubúinu hagstæður í samanburði við að þurfa að nýta díselolíu í miklum mæli, þá felur hann í sér umfangsmiklar hækkanir á keyptu rafmagni inn á hitaveituna. Því hækkar gjaldskrá hitaveitunnar um 10%.  Það segir þó ekki alla söguna því lækkun verður á húshitunarkostnaði heimila sem tengd eru fjarvarmaveitu og njóta niðurgreiðslna.

Þau fyrirtæki sem reka rafkyntar hitaveitur hafa átt í miklum samskiptum við yfirvöld á síðustu árum vegna rekstrarvanda veitnanna og lögðu þá mikla áherslu á að niðurgreiðslur yrðu auknar til að veiturnar hefðu rekstrargrundvöll.

Það skilaði árangri og var ákveðið að hækka niðurgreiðslur til rafkyntra hitaveitna frá 1. október 2024, auk þess sem Alþingi ákvað að afnema 2% skatt af heitu vatni frá kyntum hitaveitum frá og með 1. janúar 2025.

Niðurstaðan er því sú að 14% raunlækkun hefur orðið á húshitun hjá þeim heimilum sem tengd eru fjarvarmaveitu OV og njóta niðurgreiðslna, sé tekið mið af kostnaði í janúar á síðasta ári.

20. desember 2024

500þ. króna styrkur til Björgunarsveitarinnar Kofra í Súðavík

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Halldór Halldórsson forstjóri Íslenska...

20. desember 2024

20 km jarðstrengur til Súðavíkur

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska...

04. október 2024

Vel sóttur kynningarfundur vegna Kvíslatunguvirkjunar

Opinn kynningarfundur á vegum Orkubúsins vegna umhverfismatsskýrslu Kvíslatunguvirkjunar var...